
Aðalheiður Mjöll
Aðalheiður Mjöll er náms- og starfsráðgjafi og kynjafræðingur. Hún hefur aflað sér þekkingar í gegnum fjölda námskeiða er varðar þroska og heilbrigði einstaklinga, þar á meðal náttúruþerapíu, hugræna atferlismeðferð, áfallastreitu, núvitund og jákvæða sálfræði.
Meðal verkefna í starfi sínu má nefna ráðgjöf, forvarnar- og fræðslustörf, jafnréttisstörf, kennslu í hópavinnu af ýmsu tagi s.s. samskiptavinnu, kvíða, streitustjórnun og hópráðgjöf. Auk þess hefur hún verið með ýmis námskeið sem snúa að sjálfstyrkingu og valdeflingu. Með störfum sínum hefur hún stundað rannsóknir á seiglu og brotthvarfi í námi og tekið þátt í verkefnum sem miða að því að stuðla að árangri einstaklinga í námi eða á vinnumarkaði.
Síðastliðin ár hefur hún starfað sem sérfræðingur í málefnum flóttafólks hjá Hafnarfjarðarbæ þar sem starfssvið hennar hefur einkum falist í ráðgjöf ásamt því að auka virkni og menntun flóttafólks en hún hefur meðal annars komið á fót og séð um valdeflingar- og foreldrafærninámskeið.
Hugrún Margrét Óladóttir
Hugrún Margrét er með BA(Hons) gráðu í leiklist frá RWCMD og MA í listkennslu frá LHÍ. Auk þess hefur hún sankað að sér þekkingu og reynslu í gegn um tíðina í formi námskeiða og gefandi samstarfsverkefna. Í verkum sínum skoðar Hugrún líkömnun málsins og leikgleðina í að nema takt hins óræða/ósagða/óhugsaða/hálf-sagða og hálf-hugsaða og hins “hefði-kannski-getað-en-samt-ekki-jú ha?” Gagnvirk skynjunarverk hennar hafa verið sett upp fyrir marga mismunandi þjóðfélagshópa, allt frá félagsmiðstöð eldri borgara til Kátt barnahátíðar og margt inn á milli. Reynsla hennar nær yfir víðan völl, þar má til dæmis telja að vinna með táknmál í uppsetningu fyrir Barnamenningarhátíð, án tungumáls, fjöltyngt, staðbundið og promenade leikhús, brúðuleikhús og raddvinnu.
Hemn A. Hussein
Hemn A. Hussein er kúrdískur listamaður frá Írak en fékk stöðu flóttmans hér á landi árið 2020. Hann er með BA gráðu í enskum málvísindum og bókmenntum frá háskólanum í Sulaymaniyah og meistaragráðu í stjórnmálafræði og alþjóðasamskiptum frá háskólanum í Wrocław í Póllandi. Hemn hefur tekið þátt í framleiðslustjórnun myndefnis í Kúrdistan, Póllandi og á Íslandi. Hemn hefur starfað með Slemani International Film Festival frá stofnun hennar árið 2016 sem samskiptastjóri. Hemn talar fjölmörg tungumál en hann talar kúrdísku, arabísku, ensku og spænsku. Hemn starfar í dag hjá ungmennahúsinu Hamrinum í Hafnarfirði.